1xCAMP í Conil de la Frontera 2023

6 min.

Einu sinni á ári komum við saman í nokkra daga á einhverjum fallegum stað. Þessir árlegu hittingar eru hluti af fjarvinnumenningu fyrirtækisins en þeir sameina samstarfsfólk sem vinnur á skrifstofum okkar í Frankfurt, Berlín, Reykjavík og Conil de la Frontera, auk þeirra sem vinna heima víðsvegar um Evrópu.

Fyrir ári síðan hittumst við í Hveragerði. Það var hreint ótrúlegt að upplifa hita undir 10 stigum og dagsbirtu allan sólarhringinn í þeirri ferð. Í ár var þetta öðruvísi. Við hittumst í Conil de la Frontera, en það er eitt af þessum klassísku hvítu þorpum á Suður-Spáni. Þegar við mættum voru þar yfir 35 gráður og sterkur vindur sem kallast „Levante“. Andstæðan í veðurskilyrðum milli staðanna tveggja var sláandi, en við fundum leið til að aðlagast. Útbúin sólarvörn, strandhlífum, sólgleraugum og vatnsbrúsum tókst okkur að njóta ferðarinnar í botn enda var fólk mjög spennt fyrir því að hittast og verja tíma saman.

Ísinn brotinn

Eftir langt ferðalag vorum við ánægð að komast loksins á áfangastað og hitta allt samstarfsfólkið okkar. Við fengum mjög hlýjar móttökur, ekki bara í orðsins fyllstu merkingu vegna hitans úti, heldur féllst fólk í faðma þegar það hittist, sumir hverjir í fyrsta sinn en aðrir voru að hittast eftir að hafa ekki sést langan tíma.

Það var alveg á hreinu hvað við ætluðum að gera fyrst. Fólk vildi hressa sig við eftir ferðalagið svo við skelltum okkur í sundlaugina. Sumir lágu í afslappelsi við bakkann á meðan aðrir fóru í boltaleik í lauginni. Allir gátu notið á sinn hátt og byrjað að tengjast.

Matargleði: tapas og andalúsískt góðgæti

Conil de la Frontera er sannkallað sæluríki fyrir matgæðinga en þessir þrír dagar einkenndust af endalausum matarprufum við Atlantshafsströndina. Við prófuðum mikið úrval af litlum réttum (“tapas”) á lókal barnum, Pericon, snæddum ýmsa rétti á hótelinu sem eru þekktir á þessu svæði og heimsóttum einnig bestu veitingastaðina í bænum, “Feduchy” og “El Roqueo”, þar sem við gæddum okkur á ekta andalúsískum mat.

1xPuzzleTrack: frábært hópefli

Eitt af meginmarkmiðum árlegu hittinganna okkar er að tengja fólk og styrkja teymið. Í ár var 1x teyminu skipt í níu litla hópa. Hóparnir fengu síðan það verkefni að safna stigum með því að klára mismunandi hópeflisverkefni sem okkar frábæra viðburðateymi sá um að skipuleggja: Ana, Hrafi og Sophie.

Við vorum hvött til að skoða borgina með liðsfélögum okkar og verkefnin fólust m.a. í því að finna falin naut víðsvegar um bæinn, taka hópmyndir á áhugaverðum stöðum eða með túnfiskum, en túnfiska er að finna víða á svæðinu. Conil de la Frontera er gömul fiskihöfn og um allan bæinn er hægt að finna skúlptúra, flísar, málverk og fleira með túnfiskum á.

Við skemmtum okkur konunglega og leyfðum sköpunargáfunni að leika lausum hala í sandkastalakeppni. Liðin söfnuðust saman í heitum sandinum og hafgolan var hressandi meðan við létum reyna á verkfræðihæfileikana. Áskorunin var einföld: að reisa glæsilegasta sandkastalann. Við sameinuðum krafta okkar og hæfileika til að gera hugmyndirnar að veruleika. Sum okkar sáu um skipulagið, að móta traustan grunn, á meðan önnur nýttu listræna hæfileika sína og prýddu kastalana með skeljum, fánum og jafnvel kertum!

Sandkastalakeppnin var ekki aðeins stórskemmtileg, heldur styrkti hún liðsandann og sýndi okkur skýrt hvað við eigum mikið af hæfileikaríku fólki.

Við vörðum þremur dögum saman sem skilja eftir sig frábærar upplifanir og minningar sem styrktu liðsheildina. Auk þess að skemmta okkur vel reyndum við að kynnast betur og tala tungumál samstarfsfélaga okkar. Við lærðum ýmsa frasa og orðasambönd hvert af öðru á mismunandi tungumálum og fögnuðum þannig fjölbreytileikanum hjá 1x. 

Tökum smá pásu og njótum augnabliksins

Tíminn flýgur og þegar við hrærumst í dagsins amstri er auðvelt að gleyma mikilvægi þess að taka sér pásu og njóta litlu hlutanna sem láta okkur líða vel.

Í 1xCAMP fengum við tækifæri til að upplifa eitt af þessum sérstöku augnablikum saman þar sem við sátum á ströndinni og nutum fallegs sólarlags í þögn. Magnaðir litir og kyrrlát fegurðin gerði það að verkum að manni leið eins og maður væri á hárréttum stað á hárréttum tíma.

Fullkomið jafnvægi milli vinnu og einkalífs

Vinnustofa: teymi og samvinna  

Einn dagur ferðinnar var helgaður teymisvinnu og samvinnu. Við reynum að skapa einstaka vinnumenningu þar sem afrekum og tímamótum er fagnað og allir eru metnir að verðleikum. Þess vegna var mikilvægt að við hittumst og ræðum vinnumenninguna, markmiðin og gildi; það gerir öllum kleift að tjá skoðanir sínar, varpa ljósi á styrkleika okkar og greina þá hluti sem er hugsanlega hægt að bæta.

Við áttum mikið af áhugaverðum samræðum og svöruðum einföldum en mikilvægum spurningum: „Hvað gerir dag að frábærum degi?”, „Hvað gerir dag að slæmum degi?”, „Hvað finnst þér skemmtilegast við að vinna saman?“, „Hvað finnst þér erfiðast við vinna saman?", "Hvað hvetur þig áfram?"..

Allur dagurinn einkenndist af umræðum, virkri hlustun og uppbyggilegri gagnrýni. Við náðum að kryfja vinnumenningu okkar, greina styrkleikana okkar og á hvaða sviðum við getum bætt okkur. Þetta var dagur umhugsunar, tengsla og vaxtar, og hvatti okkur enn frekar til að hlúa að stuðningsríku samvinnuumhverfi þar sem allir geta vaxið og dafnað.

Eftirpartý: fjör og fagnaður

Við hjá 1xINTERNET reynum að finna jafnvægið milli vinnu og einkalífs. Við erum ekki bara að vaxa og dafna í vinnunni heldur líka persónulega, við búum til minningar og sköpum tengsl. Við elskum að vinna saman og við elskum að fagna saman. Að þessu sinni var ýmsu að fagna: mjög árangursríkum viðburði, persónulegum tímamótum og einfaldlega samverunnar.

Hvert einasta kvöld var fullt af fjöri, hlátri og ógleymanlegum augnablikum. Kvöldverðurinn á strandveitingastaðnum „Feduchy“ var enn sérstakari þar sem við héldum upp á tvö afmæli. Við héldum auðvitað í 1xINTERNET hefðina og sungum afmælissönginn á mismunandi tungumálum fyrir spænsku afmælisdrengina okkar: Alejandro og Alberto.

Við hjá 1xINTERNET skiljum mikilvægi þess að hlúa að jákvæðri vinnumenningu sem leggur áherslu á persónuleg tengsl jafnt og velgengi í starfi. Við trúum því að jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé lykillinn að vellíðan og hamingju meðal teymisins. Við erum þakklát stjórnendum fyrir að fá að vera hluti af þessu ótrúlega teymi og fyrir að byggja upp fyrirtæki sem allir elska að vinna hjá.

Deila grein

Fleiri greinar

Fyrirtækjamenning

1xHEALTH: Framtíð vinnustaðar veltur á heilsu og vellíðan starfsfólks

Stór skál af girnilegu salati

1xHEALTH er sett í forgang árið 2023. 1xINTERNET leggur ríka áherslu á að skapa heilbrigt...

5 min.
Fyrirtækjamenning

1xBRANDCHALLENGE í heilt ár

Pablo, 12 metres under the Atlantic Ocean with his 1x bag.

1xBRANDCHALLENGE áskorunin færði okkur margar góðar minningar árið 2022. Þetta var gott tækifæri til...

4 min.